Bastíans Balthasar Búx er feitur og ólánlegur strákur sem er strítt af skólafélögum sínum. Þess vegna elskar hann að gleyma sér í ævintýraheimum bóka þar sem lífið er miklu skemmtilegra og auðveldara en í raunveruleikanum. Þegar Bastían stígur inn í bókabúð Karls Konráðs Kóríanders og finnur bók sem heitir Sagan endalausa verður hann svo áhugasamur að hann ákveður að stela henni. Hann felur bókina upp á háalofti í skólanum sínum og byrjar að lesa. Smám saman verður Bastían þátttakandi í atburðarás sögunnar um keisaradæmið Hugarheima þar sem barnslega keisaraynjan ræður ríkjum. Nú er barnslega keisaraynjan veik og allt ríkið ofurselt hinni hræðilegu ógn tómsins, sem étur upp land, fjöll og skóga ríkisins og íbúana sem þar búa. Aðeins sönn hetja getur bjargað Hugarheimum og læknað barnslegu keisaraynjuna. Hetjan Atrejú er fenginn til verksins. Brátt kemur í ljós að tómið verður ekki yfirunnið án aðstoðar mennskrar veru. Bastían stígur því inn í söguna til að hjálpa Atrejú. Baráttan er tvísýn, mun þeim Atrejú og Bastían takast að bjarga barnslegu keisaraynjunni og mun Bastían takast að snúa aftur heim úr ævintýraheiminum?Sagan endalausa er eitt af meistaraverkum Michaels Ende sem tekur lesendur með sér í spennandi og innihaldsríkt ferðalag. Sagan hefur verið þýdd á yfir 36 tungumál og orðið innblástur að fjölda kvikmynda og leiksýninga.-